Ægir og ÍR gerðu 1-1 jafntefli í 2. deild karla í knattspyrnu í dag og KFR og Hamar töpuðu sínum leikjum í lokaumferð 3. deildarinnar.
ÍR-ingar komust yfir í Þorlákshöfn á 8. mínútu en Aco Pandurevic jafnaði aðeins mínútu síðar fyrir Ægi. Staðan var 1-1 í hálfleik og síðari hálfleikurinn var markalaus.
Eftir að hafa siglt nokkuð lygnan sjó meirihluta sumarsins hafa Ægismenn nú sogast niður í harða fallbaráttu en Ægir er með eitt stig úr síðustu fjórum leikjum. Ægir hefur 23 stig í 8. sæti en þar fyrir neðan eru Afturelding, Njarðvík og Reynir öll með 21 stig og Völsungur með 19. Ægir mætir Aftureldingu í lokaumferðinni og verður að vinna sinn leik ef Njarðvík og Reynir ná að leggja sína andstæðinga.
Í 3. deildinni heimsótti KFR Víði Garði þar sem heimamenn unnu öruggan 4-0 sigur. Staðan var 3-0 í hálfleik en Víðismenn innsigluðu sigurinn með fjórða markinu á lokamínútu leiksins. Rangæingar spiluðu stærstan hluta síðari hálfleiksins manni færri en Jóhann Guðmundsson fékk sitt annað gula spjald á 54. mínútu.
Þá tapaði Hamar 5-1 í Grundarfirði en lesa má um þann leik hér.
Lokastaðan í 3. deildinni varð sú að KFR hafnaði í 5. sæti með 25 stig, átta sigra, eitt jafntefli og níu töp. Hamarsmenn féllu hins vegar, luku keppni í botnsætinu með sjö stig eftir tvo sigra, eitt jafntefli og fimmtán töp.