Selfoss náði í gott stig í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar Íslandsmeistarar Þórs/KA komu í heimsókn á JÁVERK-völlinn. Niðurstaðan varð markalaust jafntefli.
„Við gerðum hlutina vel í dag og börðumst vel fyrir þessu stigi. Þannig er þetta hérna á þessum velli, það er enginn að koma á okkar heimavöll til þess að taka eitthvað af okkur,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir leik.
Þrátt fyrir markaleysið var leikurinn hinn fjörugasti, norðankonur byrjuðu betur og fengu frábær færi í fyrri hálfleik en Caitlyn Clem átti stórleik í marki Selfoss.
Síðari hálfleikurinn þróaðist svipað og sá fyrri en þegar leið á gaf Þór/KA eftir á miðjunni og Selfyssingar fóru að fá meira pláss til þess að athafna sig. Það gaf þeim vínrauðu færi á skyndisóknum en engin þeirra skilaði marki.
Selfoss er nú með 5 stig í 6. sæti deildarinnar en Þór/KA missti toppsætið í hendur Breiðabliks í kvöld. Þór/KA er í 2. sæti með 16 stig.