Hamar og Þróttur áttust við í fyrri leik liðanna þessa helgi í úrvalsdeild karla í blaki í dag.
Ferðalag Þróttar á Suðurlandið tók óvænta stefnu þegar flugvélin lenti í Keflavík í gærkveldi. Fór svo að ferðalaginu lauk ekki fyrr en eftir miðnætti og kannski skiljanlegt að leikmenn liðsins hafi verið lengi í gang dag.
Hamar vann fyrstu hrinu auðveldlega 25-16 en mótspyrnan var töluvert meiri í annarri hrinu. Jafnt var á með liðunum fram að miðri hrinu en þá náðu Þróttarar góðum kafla og þriggja stiga forystu 17-14. Hamarsmenn tóku þá við sér og jöfnuðu leikinn og eftir það var allt í járnum. Fór svo að lokum að upphækkun þurfti til að útkljá hrinuna þar sem Þróttur hafði frumkvæðið og vann að lokum 27-29.
Þriðja hrinan var nokkuð jöfn framan ef þar til Tomek Leik í liði Hamars varð að fara af velli vegna meiðsla. Hamarsmenn virtust við það missa taktinn og þó Tomek kæmi aftur inná eftir aðhlynningu dugði það ekki til og fór svo að Þróttur vann hrinuna nokkuð örugglega 25-20. Með því var ljóst að Hamarsmenn þyrftu fimm hrinu leik til að tryggja sér sigurinn.
Frá fyrsta stigi í fjórðu hrinu var augljóst að Hamarsmenn ætluðu sér einmitt það og í stöðunni 5-0 leist Þrótturum ekkert á blikuna og tóku leikhlé. Það dugði þó ekki til, Hamarsmenn héldu sínu striki og unnu hrinuna örugglega 25-11.
Í fimmtu hrinu var mikill hiti í mönnum og ljóst að bæði lið ætluðu sér sigur. Jafnt var á öllum tölum framan af en þegar Þróttur komst yfir 4-3 ætlaði allt um koll að keyra og fékk Kristján Valdimarsson í liði Hamars sitt annað gula spjald fyrir mótmæli og þar með rautt (sem í blaki þýðir stig fyrir andstæðingana en ekki útilokun úr leiknum). Staðan var þar með orðin 5-3 fyrir Þrótt sem höfðu frumkvæðið þar til Hamar náði forystu 10-9. Hana létu þeir ekki af hendi og unnu hrinuna að lokum 15-11 og leikinn þar með 3-2.
Hörkuleikur í Hveragerði í dag sem lofar góðu fyrir seinni leik liðanna klukkan 12:00 á morgun, sunnudag.