Árborg lagði Álftanes í A-riðli 3. deildarinnar í kvöld, 1-2, þrátt fyrir að vera manni færri hálfan leikinn.
Liðin mættust á Bessastaðavelli og var leikurinn í járnum í fyrri hálfleik. Andri Janusson kom Álftanesi verðskuldað yfir á 22. mínútu en Guðmundur Ármann Böðvarsson jafnaði fyrir Árborg tíu mínútum síðar með rándýru aukaspyrnumarki.
Á síðustu mínútu fyrri hálfleiks fékk Jón Auðunn Sigurbergsson, fyrirliði Árborgar, að líta rauða spjaldið og Árborgarar voru því manni færri allan síðari hálfleik.
Það kom ekki að sök því Árborgarar voru baráttuglaðir í seinni hálfleik og Ólafur Tryggvi Pálsson skoraði sigurmark leiksins á 53. mínútu. Árborg var nær því að bæta við mörkum en heimaliðið sem fann engar glufur á sterkri vörn Árborgar.