Baráttusigur ÍBU á heimavelli

Máni Snær Benediktsson skoraði tvö mörk fyrir Uppsveitir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitir unnu baráttusigur á GG í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Flúðavelli urðu 2-1.

Það gekk ekki vel hjá Uppsveitamönnum í fyrri hálfleik en þeir áttu undir högg að sækja nánast frá fyrstu mínútu. Þeir lentu undir strax á 9. mínútu þegar Gústaf Sæland varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Markið var reyndar hið glæsilegasta, þrumuskot upp í samskeytin af stuttu færi.

GG sótti nánast allan fyrri hálfleikinn og náði að skapa sér nokkur færi en Haukur Friðriksson var vel á verði í marki Uppsveita.

Leikurinn snerist heldur betur í upphafi seinni hálfleiks og á 53. mínútu tók Máni Snær Benediktsson einn af sínum góðu sprettum upp völlinn og inn í vítateig þar sem hann var felldur. Máni fór sjálfur á vítapunktinn og skoraði.

Aðeins fjórum mínútum síðar var hann aftur á ferðinni eftir góða sókn Uppsveita þar sem Máni fékk góða sendingu frá Daniel Boca og skoraði af öryggi. Baráttan var mikil í kjölfarið en síðustu tuttugu mínúturnar einbeittu Uppsveitamenn sér að því að verja sína stöðu og gerðu það af miklum krafti.

Uppsveitamenn fögnuðu vel í lokin en þetta var þriðji sigur liðsins í sumar og eru þeir nú með 9 stig í 7. sæti A-riðils 4. deildarinnar.

Fyrri greinÞyrla sótti slasaða konu á Fimmvörðuháls
Næsta greinGummi bróðir er vanmetinn