Selfoss batt enda á fjögurra leikja taphrinu í Olísdeild kvenna í handbolta í dag þegar liðið fékk Val í heimsókn. Lokatölur urðu 27-24.
Selfyssingar byrjuðu betur og komust í 3-0 en staðan var 8-7, Selfoss í vil, um miðjan fyrri hálfleikinn. Þá spýttu heimakonur í lófana og náðu mest fimm marka forskoti, en staðan var 16-12 í hálfleik.
Selfoss hélt forystunni þangað til tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en þá kom góður kafli Vals sem náði forystunni, 19-21. Selfoss sneri leiknum hins vegar sér í vil á síðustu fimm mínútunum. Staðan var 24-24 þegar fimm mínútur voru eftir en Selfoss skoraði þrjú síðustu mörk leiksins.
Katrín Ósk Magnúsdóttir, markvörður Selfoss, varði boltann í tveimur síðustu sóknum Vals, en baráttan í Selfossvörninni var til fyrirmyndar undir lokin. Þær lögðu allt undir í vörninni og þar fór Perla Ruth Albertsdóttir fremst í flokki.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 12/5 mörk, Adina Ghidoarca skoraði 5, Perla Ruth 3, Dijana Radojevic, Carmen Palamariu og Arna Kristín Einarsdóttir skoruðu allar 2 mörk og Hulda Dís Þrastardóttir 1.
Katrín Ýr varði 15 skot í marki Selfoss og tók, eins og fyrr sagði, nokkra mikilvæga bolta á lokakaflanum.
Selfoss hefur nú 10 stig í 7. sæti deildarinnar en Valur er með 16 stig í 7. sæti.