Segja má að endahnúturinn hafi verið rekinn á sumarið 2020 í gær hjá meistaraflokki Selfoss í knattspyrnu þegar verðlaun voru veitt fyrir síðasta keppnistímabil.
Ekkert lokahóf var haldið hjá Selfyssingum í haust vegna COVID-19 og vegna aðstæðna gafst ekki kostur á að afhenda verðlaunin fyrr en í gær. Það var Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari liðsins, sem afhenti verðlaunin fyrir æfingu liðsins.
Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir hlaut verðlaun fyrir mestu framfarir og ástundun en hún var einnig valin efnilegasti leikmaðurinn. Þrátt fyrir ungan aldur lék Áslaug 19 leiki í hjarta varnarinnar síðasta sumar og stóð sig virkilega vel. Tiffany McCarty var markahæst en hún skoraði 10 mörk í 19 leikjum fyrir félagið.
Þóra Jónsdóttir hlaut Guðjónsbikarinn en hann en hann er veittur fyrir mikilvægt framlag til félagsins og jákvæðni innan vallar sem utan.
Besti leikmaður ársins er síðan Barbára Sól Gísladóttir en hún átti frábært sumar í vínrauðu treyjunni. Barbára spilaði 17 leiki á síðasta tímabili og skoraði í þeim tvö mörk. Í haust var Barbára síðan valin í fyrsta skipti í A-landsliðið. Hún lék sinn fyrsta leik gegn Lettum og skilaði tveimur stoðsendingum á einungis 45 mínútum sem hún spilaði. Barbára vakti áhuga stórra liða og samdi hún við skoska félagið Celtic um að leika með liðinu fram að vori. Vegna heimsfaraldurs kórónaveiru varð ekkert úr því í þetta skiptið.