Landsliðskonan Barbára Sól Gísladóttir, leikmaður Selfoss, er á leið til skoska liðsins Celtic á láni.
Fótbolti.net greindi frá þessu í dag. Þó er óvíst hvenær Barbára fer út, þar sem þriggja vikna hlé er í skosku úrvalsdeildinni vegna kórónuveirufaraldursins og verður ekkert leikið þar í janúar.
Stefnan er að Barbára verði á láni í Skotlandi þar til keppni í Pepsi Max-deildinni hefst í vor.
Barbára Sól, sem er 19 ára gömul, hefur verið í lykilhluverki hjá Selfyssingum undanfarin ár og hún spilaði sína fyrstu A-landsleiki fyrr í vetur.
Celtic er í 3. sæti í skosku úrvalsdeildinni eftir sjö umferðir, tveimur stigum á eftir Rangers og Glasgow City.