Selfyssingar eru komnir í 8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu eftir 2-3 sigur á Stjörnunni á útivelli í dag. Barbára Sól Gísladóttir skoraði sigurmark Selfoss í framlengingu.
Jafnræði var með liðunum framan af leik en Selfyssingar urðu fyrri til að skora. Grace Rapp kom boltanum í netið á 19. mínútu eftir sendingu frá Barbáru Sól. Stjarnan var aðeins fjórar mínútur að jafna metin með glæsilegu skoti utan af vellinn í þverslána og inn. Selfoss var nær því að bæta við marki í fyrri hálfleik en staðan var 1-1 í leikhléi.
Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn betur og var sterkari aðilinn lengst af. Mörkin létu þó á sér standa og það var ekki fyrr en á lokamínútunni að Eva Lind Elíasdóttir átti skot í þverslána og Rapp hirti frákastið og skoraði sitt annað mark. Selfyssingar fögnuðu vel en sú gleði varði ekki lengi því Stjarnan jafnaði strax í næstu sókn.
Því þurfti að framlengja leikinn og framlengingin var ekki nema þriggja mínútna gömul þegar Barbára tryggði Selfyssingum sigurinn eftir frábæran sprett og gott skot frá vinstri. Selfyssingar voru sterkari í framlengingunni en smátt og smátt fjaraði leikurinn út og Stjarnan átti engin svör.
Á mánudag verður dregið í 8-liða úrslitin og þar verða Selfyssingar í pottinum ásamt Val, ÍA, Þór/KA, HK/Víkingi, KR, Fylki eða Breiðablik og Augnabliki eða Tindastól.