Bardagi til síðustu sekúndu

Nikolas Tomsick. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn fékk ÍR í heimsókn í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Eftir æsispennandi lokakafla sigruðu gestirnir, 94-95.

ÍR byrjaði betur í leiknum og leiddi nánast allan fyrri hálfleikinn. Þórsarar voru aldrei langt undan og þegar ein og hálf mínúta var eftir af 2. leikhluta komust þeir loksins yfir, 47-46. Staðan var 51-48 í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks tóku gestirnir frumkvæðið aftur en Þórsarar náðu forystunni á nýjan leik undir lok 3. leikhluta. Síðasti fjórðungurinn var hnífjafn og æsispennandi. Liðin skiptust á að leiða og þegar sex sekúndur voru eftir var Þór yfir, 94-93. Síðustu þrjár sekúndurnar dugðu ÍR-ingum til þess að lauma niður sniðskoti og tryggja sér sigurinn.

Nikolas Tomsick var stigahæstur Þórsara með 21 stig en Jordan Semple var framlagshæstur með 16 stig og 12 fráköst.

Þórsarar eru í 5. sæti deildarinnar með 14 stig en ÍR er í 8. sæti með jafnmörg stig.

Þór Þ.-ÍR 94-95 (24-32, 27-16, 24-28, 19-19)
Tölfræði Þórs: Nikolas Tomsick 21/5 stoðsendingar, Steeve Ho You Fat 16/4 fráköst, Jordan Semple 16/12 fráköst/6 stoðsendingar, Ólafur Björn Gunnlaugsson 14/6 fráköst, Mustapha Jahhad Heron 10/5 stoðsendingar, Justas Tamulis 7, Emil Karel Einarsson 7, Ragnar Örn Bragason 3.

Fyrri greinSelfoss hljóp yfir Stjörnuna
Næsta greinSunnlensku liðin á sitthvorum enda töflunnar