Bardaginn um Suðurstrandarveg vannst í framlengingu

Davíð Arnar Ágústsson og Ragnar Örn Bragason stíga sigurdans. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn heldur áfram að klífa töfluna í úrvalsdeild karla í körfubolta en í kvöld vann liðið góðan sigur á grönnum sínum við hinn enda Suðurstrandarvegar. Grindavík kom í heimsókn í Þorlákshöfn þar sem þeir grænu sigruðu 83-79 eftir framlengingu.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Grindavík leiddi í hálfleik, 32-36. Það var lítið skorað á lokamínútunum en Davíð Arnar Ágústsson setti niður þrist þegar tæpar tvær mínútur voru eftir og jafnaði fyrir Þórsara, 71-71. Fleiri stig voru ekki skoruð í venjulegum leiktíma.

Þórsarar voru sterkari í framlengingunni og höfðu frumkvæðið allan tímann. Þeir náðu fljótlega sex stiga forskoti og vörðu það af kappi.

Þór er nú í 5. sæti deildarinnar með 8 stig en Grindavík er í 9. sæti með 4 stig.

Tölfræði Þórs: Marko Bakovic 20/16 fráköst/3 varin skot, Dino Butorac 15/5 fráköst/10 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 15/7 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 10/7 stoðsendingar, Vincent Terrence Bailey 9/9 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 8, Ragnar Örn Bragason 6, Ísak Júlíus Perdue 0.

Fyrri greinDagný Brynjars aftur heim í Selfoss
Næsta greinSigurganga Hamars heldur áfram