Hamar heimsótti Skallagrím í Borgarnes í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Heimamenn reyndust sterkari og sigruðu 94-79.
Eins og í síðustu leikjum voru Hamarsmenn án lykilmanna vegna meiðsla í kvöld en Jaeden King var mættur á gólfið og skilaði fínum tölum. Skallagrímur var yfir í hálfleik, 46-36, og heimamenn gerðu nánast út um leikinn í 3. leikhluta en staðan var orðin 74-53 í upphafi 4. leikhluta. Hamar klóraði í bakkann í lokin en forystu Skallagríms varð ekki ógnað.
King var stigahæstur hjá Hamri með 25 stig en Ragnar Nathanaelsson var framlagshæstur með 11 stig og 11 fráköst.
Þegar ein umferð er eftir af deildarkeppninni er Hamar í 3. sæti með 28 stig, komnir með heimavallarrétt í úrslitakeppninni en ómögulegat að segja hver andstæðingurinn verður í 8-liða úrslitunum, þar sem neðri hluti töflunnar er í einum hnút.
Skallagrímur-Hamar 94-79 (16-21, 30-15, 26-17, 22-26)
Tölfræði Hamars: Jaeden King 25/7 fráköst, Fotios Lampropoulos 17, Birkir Máni Daðason 12/4 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 11/11 fráköst/5 varin skot, Egill Þór Friðriksson 5, Atli Rafn Róbertsson 5, Daníel Sigmar Kristjánsson 2/5 fráköst, Arnar Dagur Daðason 2.