„Það var sætt að ná sigrinum eftir slakan fyrri hálfleik,“ sagði Atli Kristinsson eftir leik Selfoss og Vals í N1 deildinni í kvöld.
„Menn voru stressaðir fyrir fyrsta heimaleikinn og þetta var ofsalega sveiflukennt hjá okkur. Varnarleikurinn var slakur í fyrri hálfleik og við vorum allt of staðir í sókninni og nýttum ekki dauðafærin,“ sagði Atli en leikur liðsins breyttist til hins betra í seinni hálfleik.
„Já, Basti tók þrumarann í hálfleik. Við vorum bara of lengi í gang. Þetta var þeirra leikur í fyrri hálfleik en um leið og við fórum að hlaupa og spila okkar leik þá varð þetta miklu betra. Við lögðum allt í þetta í lokin enda líður manni rosalega vel eftir svona leik. Það var virkilega sætt að ná þessu,“ sagði Atli sem skoraði sex mörk í leiknum.
„Við tökum samt bara eitt skref í einu. Það er margt sem við þurfum að bæta en líka margt gott sem við getum tekið með okkur í næsta leik.“