Hamar/Þór vann mikilvægan sigur á Stjörnunni, 72-78, í B-riðli úrvalsdeildar kvenna í körfubolta í Garðabænum í kvöld.
Þær sunnlensku höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleiknum og leiddu í leikhléi, 32-43. Hamar/Þór jók forskotið í sautján stig í upphafi seinni hálfleiks en eftir það hljóp spenna í leikinn og þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir hafði Stjarnan minnkað muninn í tvö stig, 66-68.
Hamar/Þór stóðst hins vegar pressuna á lokakaflanum, þær voru öruggar á vítalínunni og Abby Beeman setti niður risaþrist þegar 45 sekúndur voru eftir sem sló Stjörnuna endanlega út af laginu.
Abby Beeman átti enn einn stjörnuleikinn fyrir Hamar/Þór og skilaði þrefaldri tvennu. Hún skoraði 32 stig, tók 13 fráköst og sendi 12 stoðsendingar.
Hamar/Þór situr á toppi B-riðilsins þessa stundina, með 16 stig eins og Tindastóll og Stjarnan en bæði lið eiga leik til góða.
Stjarnan-Hamar/Þór 72-78 (19-23, 13-20, 20-18, 20-17)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 32/13 fráköst/12 stoðsendingar, Hana Ivanusa 14/7 fráköst, Fatoumata Jallow 9, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 8/7 fráköst, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 4, Gígja Rut Gautadóttir 4, Anna Soffía Lárusdóttir 4/4 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 3.