„Þetta var í einu orði sagt ömurlegt. KR-ingarnir komu klárlega tilbúnir í leikinn og við ekki,“ sagði Grétar Ingi Erlendsson, leikmaður Þórs í Þorlákshöfn, eftir skellinn gegn KR í kvöld.
KR sigraði 83-121 og Þórsarar þurfa nú tvo sigra í röð til að komast áfram í undanúrslit.
„Við töpuðum boltanum ítrekað og gáfum þeim auðveldar körfur í kjölfarið. Við sendum þá á vítalínuna trekk í trekk – en samt brutum við ekki nógu harkalega á þeim til þess að þeir myndu ekki setja skotið niður í leiðinni svo að þeir fengu þrjú stig í hverri sókn. Það voru mörg lítil atriði sem orsaka þetta,“ sagði Grétar í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Þórsarar lentu undir strax í upphafi leiks og náðu ekki að klífa brekkuna sem varð bara brattari eftir því sem leið á leikinn.
„Ég hélt að menn kæmu klárir inn í þetta en svo virðist ekki vera,“ sagði Grétar, „KR-ingarnir sýndu það að minnsta kosti að þeir voru í miklu betri gír en við. En það þýðir ekkert að hengja haus – það er næsti leikur á sunnudag. Við tökum góða æfingu á morgun og skotæfingu á laugardaginn og svo mætum við bara brjálaðir í næsta leik. Ég trúi ekki að menn ætli að láta þetta gerast aftur.“
Þórsarar voru þögulir í leikslok og að sögn Grétars hlakkar Benedikt Guðmundsyni, þjálfara Þórs, til að sjá hvernig liðið bregst við þessari stöðu. „Benni auglýsti eftir okkur inni í klefa eftir leik. Við eigum að hafa meira stolt en svo að við látum koma svona fram við okkur aftur. Það er ekki svona mikill getumunur á liðunum þannig að við eigum að gera betur, það er bara svoleiðis,“ sagði Grétar að lokum.