Aðalfundur frjálsíþróttaráðs HSK fór fram í Selinu miðvikudagskvöldið 6. maí og voru mættir 16 félagar frá níu félögum.
Á fundinum var farið í hefðbundin aðalfundarstörf auk þess sem nokkrar umræður voru um komandi keppnistímabil. Reikningar ráðsins sýndu góða afkomu og skýrsla stjórnar bar vott um mikið og gott starf.
Nokkrar tillögur komu frá stjórn sem fjölluðu um ýmis mál en hæst bar tillaga um aukinn fjárstuðning við einstaklinga HSK í landsliðshópi FRÍ. Tillögunni er ætlað að létta undir kaupum á flugfarmiðum í æfinga og keppnisferðir en frjálsíþróttamenn þurfa yfirleitt að standa sjálfir undir kostnaði slíkra ferða.
Á fundinum var einnig rætt um Meistaramót Íslands 11-14 ára sem fer fram á Selfossvelli dagana 27.-28. júní. Núna stendur yfir öflun sjálfboðaliða fyrir mótið og það er okkar von að sem flestir sjái sér fært að mæta og aðstoða okkur við framkvæmdina á þessu flotta móti.
Guðríður Aadnegard formaður HSK kom sem gestur á fundinn og veitti Benóný Jónssyni fráfarandi stjórnarmanni Frjálsíþróttaráðs og fyrrverandi formanni íþróttafélagsins Dímonar silfurmerki HSK fyrir gott starf. Benóný gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn frjálsíþróttaráðs svo viðurkenningin var vel við hæfi á þessum tímamótum.
Lára Hreinsdóttir og Sigurður Pétursson voru kosin ný í stjórn til eins árs. Þá voru Guðmunda Ólafsdóttir, Tómas Karl Guðsteinsson og Ingvar Garðarsson endurkjörin til tveggja ára.