Bergrós Ásgeirsdóttir hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Selfoss út keppnistímabilið 2023.
Bergrós, sem er 25 ára gömul, hefur leikið 104 leiki fyrir uppeldisfélagið sitt, þar af 58 leiki í efstu deild. Hún hefur ekki náð heilu keppnistímabili á Íslandi undanfarin fjögur ár, þar sem hún hefur stundað nám við Arkansasháskóla. Þar hefur hún verið lykilmaður og fyrirliði hjá Little Rock Trojans og spilað 76 leiki fyrir liðið.
„Ég er ótrúlega ánægður með að hafa náð að framlengja við Beggó. Hún er mjög mikilvæg í hópnum, gefur af sér jákvæða orku og hefur verið alveg frábær í nýrri stöðu á þessu ári. Hún er að verða fjölhæfari leikmaður og ég held að við eigum eftir að sjá hana vaxa enn meira á næstu mánuðum,“ segir Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, í tilkynningu frá Selfyssingum.