Selfyssingurinn Bergrós Björnsdóttir skrifaði sig í sögu lyftinga á Íslandi í gærkvöldi þegar hún vann silfur í -71kg flokki kvenna á Heimsmeistaramóti 17 ára og yngri í Lima í Perú þegar hún lyfti 198 kg samanlagt.
Þetta eru fyrstu verðlaun sem Íslendingur vinnur á heimsmeistaramóti í ólympískum lyftingum yfir alla aldursflokka. Nokkrum dögum fyrir mótið var Bergrós alls ekki líkleg til afreka því viku fyrr hafði hún tognað illa á ökkla í Frakklandi á undanúrslitamóti fyrir Heimsleikana í CrossFit.
Gat ekki gengið fyrir viku síðan
„Síðasta sunnudag þá gat ég ekki gengið. Ég kom hingað af því að þetta er mitt síðasta ár í ungmennaflokki og mig langaði til þess að grípa tækifærið því ég taldi að ég gæti komist á verðlaunapall. Eftir meiðslin þá átti ég ekki von á því að verða tilbúin fyrir mótið, það er nánast kraftaverk að ég gat keppt,“ sagði Bergrós í samtali við heimasíðu Alþjóða lyftingasambandsins.
Bergrós snaraði 88 kg sem er 1 kg bæting á Íslandsmetinu í hennar aldursflokki. Hún átti ágæta tilraun við 91 kg sem hefði tryggt henni gull í snörun en stóð ekki upp með þyngdina.
Hársbreidd frá heimsmeistaratitli
Í jafnhendingu opnaði hún á 110 kg sem er 10 kg persónuleg bæting og 4 kg bæting á Íslandsmetinu í aldursflokknum. Hún átti góða tilraun við 114 kg í annarri tilraun en náði henni ekki og fór svo í 115 kg í lokalyftunni með það að markmiði að tryggja sér sigurinn. Bergrós náði að lyfta þyngdinni upp fyrir haus í lás en missti aðeins jafnvægið í lokahluta lyftunnar og missti hana afturfyrir sig. Hún hlaut því bronsið í jafnhendingu en tók silfrið í samanlögðu, hársbreidd frá heimsmeistaratitlinum.
Fyrir utan silfurverðlaun í samanlögðum árangri og bronsverðlaun í jafnhendingu þá bætti Bergrós árangur sinn um 17 kg og tók öll Íslandsmet í aldursflokknum sem áður voru í eigu Úlfhildar Örnu Unnarsdóttur.