Lyftingakonan Bergrós Björnsdóttir og skotíþróttamaðurinn Hákon Þór Svavarsson voru útnefnd íþróttakona og íþróttakarl Sveitarfélagsins Árborgar 2024 á uppskeruhátíð fræðslu- og frístundanefndar Árborgar sem haldin var á Hótel Selfossi í kvöld.
Þrettán karlar og ellefu konur voru tilefnd í kjörinu en sérstök valnefnd kaus á milli íþróttafólksins ásamt því sem almenningur kaus í netkosningu.
Bergrós vann silfur í -71kg flokki kvenna á Heimsmeistaramóti 17 ára og yngri í Perú en þetta eru fyrstu verðlaun sem Íslendingur vinnur á HM í ólympískum lyftingum frá upphafi. Á HM bætti hún Íslandsmetið í sínum aldurs- og þyngdarflokki, bæði í jafnhendingu og snörun. Hún á nú öll Íslandsmetin undir 15 ára og undir 17 ára í -64 og -71 kg flokki. Bergrós er einnig ein fremsta CrossFit kona landsins en hún sigraði á sterku boðsmóti unglinga á Spáni og keppti á sínum þriðju Heimsleikum í röð í ungmennaflokki. Hún keppti einnig tvívegis í flokki fullorðinna á CrossFit mótum í Bandaríkjunum og Frakklandi, aðeins 17 ára gömul.
Hákon Þór keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í París í haglabyssuskotfimi. Þar varð hann í 23. sæti á þessu stærsta sviði heims í íþróttum. Hákon varð einnig Íslandsmeistari á árinu og jafnaði eigið Íslandsmet í greininni, auk þess sem hann varð stigameistari Skotíþróttasambands Íslands. Hákon keppti einnig á alþjóðlegum mótum í Marokkó og á Ítalíu með góðum árangri.
Örugg kosning sigurvegaranna
Bergrós hlaut 100 stig í kjörinu en önnur varð handknattleikskonan Perla Ruth Albertsdóttir með 51 stig og frjálsíþróttakonan Bryndís Embla Einarsdóttir varð í 3. sæti með 42 stig. Hjá körlunum hlaut Hákon Þór 90 stig, motocrossmaðurinn Alexander Adam Kuc varð í 2. sæti með 42 stig og kylfingurinn Aron Emil Gunnarsson í 3. sæti með 39 stig.
Auk útnefningar íþróttafólks ársins var fjöldi íþróttamanna heiðraður í kvöld fyrir góðan árangur árið 2024 og einnig var úthlutað var úr afreks- og styrktarsjóðum Árborgar og Umf. Selfoss, Golfklúbbs Selfoss og Körfuknattleiksfélags Selfoss. Einnig voru árleg hvatningarverðlaun fræðslu- og frístundanefndar veitt og að þessu sinni komu þau í hlut Körfuknattleiksfélags Selfoss sem á síðasta ári endurvakti kvennalið félagsins.