Bergrós rústaði síðustu greininni og tryggði sér 3. sætið

@bergrosbjornsdottir

Selfyssingurinn Bergrós Björnsdóttir varð í 3. sæti í flokki 16-17 ára stúlkna á heimsleikunum í CrossFit en tvær síðustu greinarnar fóru fram í dag.

Bergrós var í 7. sæti þegar keppni hófst í dag en hún gerði frábærlega í báðum wodum dagsins, varð í 2. sæti í fyrri greininni og var var þá komin upp í 5. sætið. Á þeirri stundu var verðlaunapallurinn galopinn en keppnin var hnífjöfn á milli 3. og 8. sætisins.

Berglind Hafsteinsdóttir, móðir Bergrósar, sagði sunnlenska.is fyrr í kvöld að Bergrós væri í miklu stuði fyrir síðustu greinina og það var svo sannarlega rétt. Hún gerði sér lítið fyrir og kláraði langfyrst og tryggði sér um leið 3. sætið í keppninni. Frábær árangur hjá Bergrós og hennar besta frammistaða hingað til á sínum öðrum heimsleikum!

Heimsleikarnir fara fram í Madison í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum í sól og miklum hita sem tók sinn toll af mörgum keppendum. Á fyrsta keppnisdegi var Bergrós borin af velli eftir alvarlegt hitaslag og skellt beint ofan í ískalt klakabað. Hún náði að hvíla sig og nærast fyrir komandi átök og leiðin lá stöðugt upp á við eftir það hjá þessari mögnuðu íþróttakonu.

Fyrri greinSelfyssingum leist ekki á blikuna
Næsta greinÁ þriðja tug umsókna um nýtt starf í Hveragerði