Þrír leikmenn kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu skrifuðu í dag undir samninga við félagið. Allar sömdu þær til tveggja ára.
Þetta eru þær Bergrós Ásgeirsdóttir, Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir og Dagný Rún Gísladóttir. Þær eru allar 19 ára gamlar.
Bergrós spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki árið 2015 en hún stimplaði sig inn sem lykilmaður í liði Selfoss í Pepsi-deildinni í sumar og spilaði 18 leiki í deild og bikar. Bergrós er varnarmaður og á að baki tvo landsleiki með U17 ára liði Íslands.
Sunneva lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki í sumar en hún spilaði 15 leiki í deild og bikar ásamt því að vera markahæsti leikmaður 2. flokks í sumar. Sunneva er fjölhæfur leikmaður en hún spilaði stöðu bakvarðar í meistaraflokki en sem miðju- eða sóknarmaður í 2. flokki.
Dagný Rún var í leikmannahópi meistaraflokks í sumar en kom ekki við sögu í Pepsi-deildinni. Hún var hins vegar fyrirliði í sterku liði 2. flokks Selfoss og var í lykilhlutverki á miðjunni þar.