Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri (BES) sigraði í Suðurlandsriðli Skólahreysti. Keppnin fór fram síðastliðinn miðvikudag í Ásgarði í Garðabæ.
BES sigraði með 57 stigum, Grunnskólinn á Hellu fékk 53 stig og Grunnskóli Bláskógabyggðar 52,5 stig. Þar á eftir komu Sunnulækjarskóli með 49 stig og Flúðaskóli með 44 stig. Ellefu skólar tóku þátt í keppninni.
BES er þar af leiðandi kominn í úrslitakeppnina sem fram fer í Laugardalshöll 26. apríl og verður í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.
Þetta er glæsilegur árangur hjá liði BES en skólinn náði 4. sæti í fyrra. Nemendur BES hafa æft linnulaust fyrir keppnina í vetur undir handleiðslu Vigfúsar Helgasonar íþróttakennara. Lið skólans skipa Halldór Ingvar Bjarnason, Símon Gestur Ragnarsson, Bríet Bragadóttir, Lilja Atladóttir, Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Eyþór Ás Þórisson og Hrafn Arnason.