„Besta handboltalið sem félagið hefur átt“

Patrekur og Grímur fylgjast með Selfossliðinu af bekknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss mætir slóvenska liðinu RD Riko Ribnica í seinni leik 2. umferðar í EHF-bikarsins í handbolta á laugardaginn. Leikurinn fer fram í Hleðsluhöllinni á Selfossi og hefst hann kl 18:00.

„Við eigum ágæta möguleika á að vinna leikinn og fara áfram í keppninni. Þetta eru tvö góð handboltalið sem mætast og ég get lofað því það verður enginn svikinn af því að mæta í Hleðsluhöllina,“ segir Grímur Hergeirsson, aðstoðarþjálfari, í samtali við sunnlenska.is.

Grímur hefur sjálfur reynslu af Evrópukeppninni sem leikmaður í gullaldarliði Selfoss. Hvernig ber hann liðið í dag saman við liðið sem spilaði í Evrópukeppninni fyrir 24 árum síðan?

„Með fullri virðingu fyrir okkur, gömlu mönnunum sem spiluðum fyrir 24 árum, þá er Selfossliðið í dag án efa besta handboltalið sem félagið hefur átt,“ segir Grímur og bætir við að stuðningurinn á laugardaginn muni skipta miklu máli.

„Stuðningmenn okkar eru þeir bestu á Íslandi, ekki nokkur spurning. Stuðningur áhorfenda skiptir gríðarlegu máli fyrir strákana og getur í rauninni ráðið úrslitum í svona leikjum. Það er ólýsanleg tilfinning að finna þá samstöðu sem hefur einkennt samfélagið hér á Selfossi síðustu misseri í kring um liðið. Saman erum við óstöðvandi.“

Forsala á leikinn í kvöld
Forsala miða fer fram í Hleðsluhöllinni í kvöld, fimmtudaginn 11. október kl. 18:30 og eru áhugasamir hvattir til að tryggja sér miða sem fyrst.

Á laugardaginn hefst upphitun fyrir leikinn kl. 16:00 í Hleðsluhöllinni þar sem boðið verður upp á grillaða hamborgara, varning til sölu í sjoppunni og fleira. Upphitun fyrir árskortshafa er á sama tíma í Tíbrá. Þar verður boðið upp á hamborgara og drykki, þjálfarafundur með Patreki verður stundvíslega kl. 16:45.

Fyrri greinRán ráðin hjúkrunarstjóri í Rangárþingi
Næsta greinGestirnir gerðu áhlaup undir lokin