Besti árangur HSK/Selfoss í nokkur ár

Bryndís Embla Einarsdóttir varð í 2. sæti í spjótkasti kvenna og bætti landsmetið í sínum aldursflokki með 600 gr. spjóti. Ljósmynd/FRÍ

HSK/Selfoss sendi öflugt lið til keppni á bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands sem fram fór í Kópavogi síðastliðinn laugardag. HSK/Selfoss varð í 3. sæti með 108 stig sem er besti árangur liðsins í stigakeppninni í nokkur ár.

FH-ingar urðu bikarmeistarar með 166 stig og ÍR varð í 2. sæti með 152 stig. Í kvennakeppninni varð HSK/Selfoss í 4. sæti með 54 stig og í karlakeppninni í 5. sæti með 54 stig einnig.

Kristinn Þór Kristinsson, sem ekki hefur sést á hlaupabrautinni í rúmlega eitt ár, mætti ferskur í 3.000 m hlaup og tryggði sér bikarmeistaratitilinn á tímanum 9:27,40 mín. Kristinn bætti þar 32 ára gamalt héraðsmet Ingvars Garðarssonar í flokki 30-34 ára öldunga um tæpar fjórar mínútur.

Bryndís Embla Einarsdóttir, sem er aðeins 15 ára, náði öðru sæti í spjótkasti þegar hún kastaði spjótinu 44,75 m. Þar bætti hún eigið Íslandsmet frá því í júní um 14 sm en kastið er einnig héraðsmet í flokkum 15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára.

Fleiri lands- og héraðsmet féllu á mótinu. Ágústa Tryggvadóttir kastaði 10,49 m í kúluvarpi og bætti eigið Íslandsmet í flokki 40-44 ára um 22 sm. Þá jafnaði Ísold Assa Guðmundsdóttir héraðsmetið í stangarstökki í flokki 16-17 ára. Ísold Assa stökk 2,80 m og deilir nú héraðsmetinu með Eydísi Þórunni Guðmundsdóttur, Íþf. Dímon.

Fyrri greinGrótta lagði Selfoss á Ragnarsmótinu
Næsta greinEkið á þrjár kindur