Besti árangur Íslendings á Ólympíuleikum

Hákon Þór á skotvellinum í Châteauroux í Frakklandi. Ljósmynd/ÍSÍ

Selfyssingurinn Hákon Þór Svavarsson varð í 23. sæti í haglabyssuskotfimi á Ólympíuleikunum en undankeppninni lauk í morgun. Þetta er besti árangur Íslendings í greininni á Ólympíuleikunum.

Keppnin snýst um það að skjóta 25 leirdúfur í hverri umferð. Í gær voru skotnar þrjár umferðir og hitti Hákon 23 dúfur í hverri umferð og lauk því fyrri degi með 69 stig.

Í fyrri umferðinni í morgun hitti Hákon úr 22 skotum af 25 og var því með 91 stig fyrir lokaumferðina í 26. sæti. Hann gerði sér lítið fyrir og fékk fullt hús stiga í lokaumferðinni, hitti úr öllum 25 skotunum og lyfti sér upp í 23. sætið með 116 stig. Sex efstu skytturnar fara í úrslit en Hákon hefur lokið leik.

Þetta er besti árangur Íslendings í haglabyssuskotfimi á Ólympíuleikunum en á ÓL í Sidney 2000 fékk Alfreð Karl Alfreðsson 111 stig og varð í 47. sæti.

Fyrri greinBergrós í svissnesku úrvalsdeildina
Næsta greinAlelda bíll í Kömbunum