Selfoss vann öruggan sigur á Víkingi, 37-26, í lokaumferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. Deildarmeistaratitillinn féll í hendur Eyjamanna.
Það var mikil dramatík eftir leik í kvöld. Selfoss þurfti að treysta á að ÍBV myndi tapa stigum í leiknum gegn Fram og það mátti ekki miklu muna að það gerðist. Leik Fram og ÍBV lauk tíu mínútum eftir leik Selfoss, vegna rafmagnsleysis í Safamýrinni þannig að Selfyssingar biðu í nagandi óvissu eftir úrslitunum. Það fór svo að ÍBV tryggði sér eins marks sigur, 33-34, með síðasta skoti deildarkeppninnar, sex sekúndum fyrir leikslok.
Um leik Selfoss og Víkings þarf ekki að hafa mörg orð. Selfyssingar voru miklu betri og leiddu í leikhléi, 17-12. Þeir byrjuðu af miklum krafti í seinni hálfleik og skoruðu fyrstu fjögur mörkin. Víkingar áttu aldrei svar eftir það.
Selfyssingar urðu í 2. sæti í Olísdeildinni sem er besti árangur félagsins frá upphafi. Þeir mæta Stjörnunni í 8-liða úrslitum deildarinnar en úrslitakeppnin hefst um miðjan apríl.
Árni Steinn Steinþórsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Haukur Þrastarson skoraði 6 og var frábær í vörninni, Teitur Örn Einarsson skoraði 6/1, Hergeir Grímsson 4, Richard Sæþór Sigurðsson, Elvar Örn Jónsson og Atli Ævar Ingólfsson 3, Guðjón Baldur Ómarsson 2 og þeir Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Einar Sverrisson skoruðu báðir 1 mark.
Helgi Hlynsson varði 9 skot í marki Selfoss og Sölvi Ólafsson 2.