Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon, leikmaður Magdeburg, var kosinn leikmaður ársins í þýsku 1. deildinni í handknattleik, bestu handknattleiksdeild í heimi. Hann vann kosninguna með yfirburðum.
Kosið var á milli sjö leikmanna og fékk Ómar 65% atkvæða. Næstur honum kom Johannes Golla, fyrirliði þýska landsliðsins og leikmaður Flensburg með 11% atkvæða.
Ómar Ingi átti frábært tímabil í þýsku deildinni í vetur og varð þýskur meistari með Magdeburg fyrr í þessum mánuði. Hann var næst markahæsti leikmaður deildarinnar og var valinn í lið ársins. Þá er skemmst að minnast frammistöðu hans á Evrópumeistaramótinu í janúar þar sem hann varð markakóngur mótsins.