Hamarsmenn gátu gengið nokkuð sáttir af velli þrátt fyrir tap gegn Haukum í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Haukar sigruðu 101-95 en Hamar hefur betur í innbyrðis viðureignum liðanna.
Hamarsmenn voru ekki með í leiknum í 1. leikhluta en eftir hann leiddu Haukar 30-8. Hamar tók sig á í 2. leikhluta en munurinn hélst sá sami og staðan í hálfleik var 57-35.
Hamar var sterkari aðilinn í síðari hálfleik og unnu Hvergerðingar forskot Hauka smátt og smátt niður. Þegar síðasti fjórðungurinn hófst var staðan 75-61 og baráttan var mikil í lokaleikhlutanum. Haukar höfðu tólf stiga forskot þegar fimm mínútur voru eftir en síðustu þrjár mínúturnar pressuðu Hamarsmenn grimmt og náðu að minnka muninn niður í sex stig á lokamínútunni. Haukar höfðu boltann í síðustu sókn leiksins en Hamarsmenn vörðust vel og náðu reyndar boltanum eftir klaufaskap Hauka þegar ein sekúnda var eftir af leiknum.
Haukar fóru uppfyrir Hamar með sigrinum en Hamar á leik til góða og endi liðin jöfn að stigum verða Hamarsmenn ofar á töflunni með fleiri stig skoruð á útivelli. Bæði lið unnu heimaleiki sína með sex stigum í innbyrðisleikjum liðanna og Hamar því með heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni.
Jerry Hollis var stigahæstur hjá Hamri með 29 stig, Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 24, Halldór Gunnar Jónsson 16 og Oddur Ólafsson 10.