Kvennalið Selfoss í handbolta tók við sigurlaununum í Grill66 deildinni eftir stórsigur á ungmennaliði Vals að Hlíðarenda í dag, 21-36.
Selfoss hafði tryggt sér sigur í deildinni fyrir lokaumferðina í dag og þegar upp var staðið vann Selfoss deildina með 36 stig og þriggja stiga forskot á ÍR sem er í 2. sæti.
Sigur Selfyssinga var aldrei í hættu í dag, staðan var 17-21 í hálfleik en í seinni hálfleiknum settu Selfyssingar allt í botn, bæði í vörn og sókn og unnu að lokum fimmtán marka sigur.
Tinna Sigurrós Traustadóttir var lang markahæst Selfyssinga með 15 mörk. Tinna Soffía Traustadóttir skoraði 6, Inga Sól Björnsdóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 3, Hafdís Alda Hafdal og Rakel Guðjónsdóttir 2 og þær Mina Mandic, Rakel Hlynsdóttir, Emilía Ýr Kjartansdóttir, Katla Björg Ómarsdóttir og Roberta Stropus skoruðu allar 1 mark.