Bikarmeistararnir töpuðu fyrir Reykjavíkurmeisturunum

Dagný Brynjarsdóttir sækir að marki Fylkis í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss tapaði 0-3 þegar liðið tók á móti nýbökuðum Reykjavíkurmeisturum Fylkis í Lengjubikarnum í knattspyrnu á Selfossvelli í dag.

Fylkir komst yfir á 17. mínútu þegar Stefanía Ragnarsdóttir skoraði úr vítaspyrnu eftir að Halla Helgadóttir hafði brotið af sér í teignum.

Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins en Fylkir komst í 0-2 snemma í seinni hálfleik. Gestirnir fengu þá aukaspyrnu og í kjölfar hennar gekk Selfyssingum illa að hreinsa frá marki. Á endanum barst boltinn á Söru Dögg Ásþórsdóttur sem potaði honum í þaknetið.

Fylkir innsiglaði svo 0-3 sigur með marki á 80. mínútu þegar Selfyssingar sváfu á verðinum og Bryndís Níelsdóttir skoraði af stuttu færi.

Nokkrum andartökum áður hafði Magdalena Reimus fengið gult spjald fyrir vægt brot og svo annað gult strax á eftir fyrir mótmæli. Selfyssingar kláruðu því leikinn 10 á móti 11 í snjókomunni á Selfossvelli.

Eftir tvær umferðir er Selfoss án stiga í Lengjubikarnum og mætir næst Þór Akureyri á útivelli um næstu helgi.

Fyrri greinHamar fékk skell í Njarðvík
Næsta greinÆgir fékk skell í Lengjunni