Bikarmeistarar Selfoss unnu verðskuldaðan sigur á Þór/KA á útivelli í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í dag. Lokatölur urðu 1-2.
Bæði lið fengu góð færi í upphafi leiks og Alli Murphy átti meðal annars stangarskot á 16. mínútu. Þór/KA sótti meira en Selfyssingar urðu fyrri til að skora. Magdalena Reimus átti þá góða sendingu inn á teiginn sem varnarmaður Þórs/KA skallaði fyrir fætur Grace Rapp og hún skoraði af stuttu færi.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks kom Magdalena Selfossi svo í 0-2 eftir laglegt þríhyrningsspil við Alli Murphy. Magdalena slapp þannig ein inn í vítateiginn og skoraði auðveldlega framhjá Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur í marki Þórs/KA.
Staðan var 0-2 í leikhléi en seinni hálfleikurinn byrjaði með „norðanáhlaupi“ þar sem sóknirnar dundu á vörn Selfyssinga. Kelsey Wys og vörn Selfoss voru þó með allt á hreinu en Þór/KA var þó nálægt því að skora á 69. mínútu þegar boltinn fór í þverslána á marki Selfoss eftir hornspyrnu.
Fimm mínútum síðar slapp Stephany Mayor innfyrir Selfossvörnina og minnkaði muninn í 1-2 en í kjölfarið fjaraði leikurinn út og þær vínrauðu höfðu góð tök á leiknum á lokakaflanum.
Með sigrinum fór Selfoss aftur upp í 3. sætið, uppfyrir Þór/KA, og hefur nú 25 stig en Þór/KA er í 4. sætinu með 24 stig.