Bikarmót Fimleikasambands Íslands í stökkfimi fór fram á Akranesi í gær. Fimleikadeild Umf. Stokkseyrar sendi tvö lið til keppni auk tveggja gestakeppenda.
Bikarmótið er liðakeppni í fjölþraut þar sem mest fimm keppendur eru saman í liði og gilda þrjár hæstu einkanirnar til stiga á einstökum áhöldum.
Stúlkurnar í Stokkseyri H4 urðu bikarmeistarar í flokki 17 ára b, og er það annað árið í röð sem þessar glæsilegu stúlkur hreppa titilinn.
Stúlkurnar í Stokkseyri H3 náðu síðan glæsilegum árangri þegar þær lentu í 3. sæti af tíu liðum í flokki 13 – 14 ára b. Verður það að teljast mjög góður árangur þar sem að meðalaldurinn í liðinu þeirra var 11 ár.
Bræðurnir Óskar Atli og Tryggvi Rúnar Kristinssynir kepptu síðan sem gestakeppendur, þar sem það þarf að lámarki þrjá keppendur til þess að mynda lið. Þeir stóðu sig geysilega vel eins og alltaf og voru Stokkseyringum til sóma, líkt og allir keppendur félagsins.
Stúlkurnar í H3, þær Iðunn Freyja Magnúsdóttir, Lára Björk Gunnlaugsdóttir, Vanda Jónasardóttir, Petra Lind Grétarsdóttir og Sunna Marianna Kjartansdóttir Lubecki. Bronshafar á Bikarmóti FSÍ í stökkfimi 2014.
Óskar Atli og Tryggvi Rúnar Kristinssynir ásamt flottum Gerplustrákum sem vöktu mikla athyggli á mótinu. Bræðurnir fengu þarna að kynnast glæsilegum fyrirmyndum og er markmiðið að ná jafn langt og þeir, ef ekki lengra.