Bikarveisla á Selfossvelli

Það verður sannkölluð bikarveisla á JÁVERK-vellinum á Selfossi um helgina en í dag og á morgun fara fram þrír leikir 2. umferð Borgunarbikars karla í knattspyrnu.

Veislan hefst í kvöld þegar Selfyssingar, sem leika í Inkasso-deildinni, taka á móti 4. deildarliði Kormáks/Hvatar frá Hvammstanga og Blönduósi. Selfoss hefur aldrei mætt Kormáki eða Hvöt í opinberum keppnisleik í meistaraflokki karla.

Á laugardag eru svo tveir leikir. Kl. 13:00 tekur Árborg á móti nágrönnum sínum í Hamri en liðin leika bæði í 4. deildinni. Þetta verður ellefta viðureign liðanna í gegnum tíðina en þau hafa aldrei mæst í bikarkeppninni. Ef marka má fyrri leiki liðanna verður hart barist í þessum leik.

Kl. 17:00 á laugardag er svo komið að enn einum stórleiknum en þá tekur 4. deildarlið Stokkseyrar á móti Leikni Reykjavík, sem leikur í Inkasso-deildinni. Þetta er líklega einn stærsti leikur sem Stokkseyringar hafa spilað frá upphafi, en þetta er í fyrsta skipti sem liðið kemst í 2. umferð bikarkeppninnar.

Á laugardag leikur Ægir á útivelli gegn Álftanesi kl. 14:00 og KFR heimsækir Berserki kl. 16:00.

Sigurliðin í þessum leikjum eru komin í 32-liða úrslitin en þá bætast liðin úr Pepsi-deildinni í pottinn þegar dregið verður.

Fyrri greinBergrisi rukkar við Seljalandsfoss
Næsta greinErna J: Til hamingju Flóahreppur!