Golfklúbbur Selfoss hefur ráðið Bjarka Þór Guðmundsson sem vallarstjóra GOS í heilsárstöðu. Hann mun hefja störf þann 17. febrúar næstkomandi.
Bjarki hefur unnið síðustu tvö sumur á Svarfhólsvelli en hann hefur mest séð um slátt og fleira á íþróttavöllum Árborgar, en GOS sér um allan slátt og viðhald á völlum Árborgar. Áður vann Bjarki í nokkur ár á Kiðjabergsvelli.
Sem vallarstjóri hefur Bjarki yfirumsjón með allri umhirðu og slætti Svarfhólsvallar og íþróttavalla Árborgar í samráði við framkvæmdastjóra.
Að sögn Hlyns Geirs Hjartarsonar, framkvæmdastjóra GOS, er stjórn félagsins gríðarlega ánægð með að ná samningum við þennan góða og duglega dreng sem muni eflaust standa sig með prýði.
Þrátt fyrir að hefja ekki störf fyrr en í febrúar hefur Bjarki verið síðustu daga að brjóta klaka á flötum Svarfhólsvallar. Hlynur Geir segir golfara vona að það hlýni aðeins næstu vikurnar svo að ekki komi kal í flatirnar.