Norðurlandameistaramótið í ólympískum lyftingum U19 ára fór fram um helgina í Miðgarði í Garðabæ. Selfyssingurinn Bjarki Breiðfjörð Björnsson, frá Crossfit Selfoss, náði frábærum árangri á mótinu og varð Norðurlandameistari þriðja árið í röð.
Bjarki hefur síðustu tvö ár sigrað í -73 kg flokki en hann keppti nú í fyrsta skipti í -81 kg flokki. Það kom ekki í veg fyrir að hann næði í titilinn eftir hörkukeppni í fjölmennum keppendahópi. Bjarki snaraði 116 kg og bætti sig um 6 kg og tók svo 130 kg í jafnhendingu og bætti sig um 3 kg í keppni þar.