Selfyssingarnir Bjarki Már Elísson og Elvar Örn Jónsson voru markahæstir þegar Ísland tapaði 26-24 gegn Portúgal í undankeppni EM í handbolta í Matosinhos í Portúgal í kvöld.
Leikurinn var jafn fyrsta korterið en eftir það náðu Portúgalir undirtökunum og leiddu 14-11 í hálfleik. Ísland komst yfir, 20-21, um miðjan seinni hálfleikinn en Portúgalir voru sterkari á lokakaflanum og sigruðu að lokum með tveimur mörkum.
Bjarki Már og Elvar Örn skoruðu báðir 6 mörk og þeir Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason skoruðu báðir 1 mark.
Liðin mætast aftur á Ásvöllum í Hafnarfirði í undankeppni EM næstkomandi sunnudag.