Bjarki og Ómar meðal tíu efstu

Bjarki Már Elísson og Ómar Ingi Magnússon. Ljósmyndir/HSÍ

Handknattleiksmennirnir Bjarki Már Elísson og Ómar Ingi Magnússon frá Selfossi koma báðir til greina í kjörinu á íþróttamanni ársins 2021 hjá Samtökum íþróttafréttamanna.

Tíu efstu sætin í kjörinu hafa verið opinberuð, en úrslitin verða tilkynnt þann 29. desember næstkomandi.

Bjarki Már er liðsmaður Lemgo í Þýskalandi. Hann varð þriðji markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar 2020-21 og þýskur bikarmeistari með Lemgo. Hann var í lykilhlutverki með landsliðinu á HM í Egyptalandi og markahæsti leikmaður þess.

Ómar Ingi leikur einnig í Þýskalandi, með liði Magdeburg. Hann varð markakóngur þýsku deildarinnar 2021 og er áfram meðal markahæstu manna deildarinnar í ósigrandi liði Magdeburg í vetur, ásamt því að eiga næstflestar stoðsendingar. Hann vann Evrópudeildina með liðinu og síðan heimsmeistaramót félagsliða þar sem Magdeburg vann Barcelona í úrslitaleik.

Vésteinn og Þórir þjálfarar ársins
Þjálfari ársins verður einnig útnefndur á hátíðinni þann 29. desember og þar eru tveir Selfyssingar meðal þriggja efstu, þeir Vésteinn Hafsteinsson og Þórir Hergeirsson.

Vésteinn þjálfaði gull- og silfurverðlaunahafa í kringlukasti karla á Ólympíuleikunum í Tókýó og Þórir er þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta sem varð heimsmeistari og Evrópumeistari og fékk bronsverðlaun á Ólympíuleikunum.

Þórir og Vésteinn á Ólympíuleikunum í London 2012. Ljósmynd/sunnlenska.is
Fyrri greinÍbúðafjöldi á Flúðum gæti tvöfaldast í nýju hverfi
Næsta greinMargt af því besta sem við borðum eru gerjaðar vörur