Árborgarar fóru illa að ráði sínu í mikilvægum leik gegn Skautafélagi Reykjavíkur í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu á útivelli í kvöld.
Árborg klúðraði tveimur vítaspyrnum í fyrri hálfleik. Skeiðamaðurinn Bjarni Rúnarsson stóð á milli stanganna hjá Skautafélaginu og hann gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu frá Guðmundi Garðari Sigfússyni á 4. mínútu og svo aftur frá Daníel Inga Birgissyni á 43. mínútu.
Staðan var því 0-0 í leikhléi en Skautafélagið náði svo forystunni með marki á fyrstu mínútu síðari hálfleiks. Hartmann Antonsson jafnaði metin á 57. mínútu og þar við sat eftir hörkuleik.
Árborg er í 2. sæti riðilsins með 13 stig en SR er í 4. sætinu með 8 stig.