Björgvin Karl hefur keppni í dag

Í dag hefur Stokkseyringurinn Björgvin Karl Guðmundsson keppni á Heimsleikunum í crossfit, The Crossfit Games, Í Los Angeles í Bandaríkjunum.

Keppnin hefst klukkan 14:00 að íslenskum tíma og fyrsta greinin er sjósund.

Björgvin hefur verið síðustu fjórar vikurnar í æfingabúðum fyrst í Wigan þar sem hann, Ragnheiður Sara og tveir breskir æfingafélagar þeirra æfðu róður undir handleiðslu Cameron Nicol, fyrrverandi olympíumeistara í róðri.

Frá Wigan héldu þau til Mallorca þar sem þau æfðu hjá Chris Hinsaw, margföldum Iron man og þríþrautarmeistara. Síðustu tvær vikurnar hefur hópurinn svo dvalið í Los Angeles þar sem þau lögðu lokahönd á undirbúning fyrir keppnina ásamt Erik Lau Kelner, lyftingaþjálfara hópsins. Með í för var svo osteropati og sjúkraþjálfari og íþróttanæringafræðingur sem hefur matreitt hverja einustu máltíð fyrir þau.

Þetta er annað árið í röð sem Björgvin keppir á Heimsleikunum en hann hefur varið síðustu 12 mánuðum í undirbúning og er sterkari og í betra formi en nokkru sinni fyrr og ætlar sér að bæta árangur sinn á mótinu frá því fyrra en þá lenti hann í 26. sæti af fimmtíu keppendum.

Dagskrá keppninnar má sjá hér en sunnlenska.is mun flytja fréttir af mótinu daglega þangað til því lýkur á sunnudaginn.

Fyrri greinFesti kaupir Kjarnann
Næsta greinDagný og Guðmunda í úrvalsliðinu