Stokkseyringurinn Björgvin Karl Guðmundsson heldur áfram að gera það gott á CrossFit mótum en um síðustu helgi sigraði hann í parakeppni á sterku móti í Svíþjóð.
Liðsfélagi Björgvins Karls á mótinu var Frederik Ægidius en mótið kallaðist Frontline 2013 og fór fram í Malmö. Tveir og tveir voru saman í liði og var sigur þeirra Björgvins og Frederik nokkuð öruggur frá upphafi.
Björgvin Karl vakti mikla athygli á mótinu fyrir frábæra frammistöðu og er ljóst að hann er að stimpla sig inn sem einn af bestu CrossFitturum í Evrópu.
Annar Stokkseyringur komst á pall á mótinu en Númi Snær Katrínarson, CrossFit-þjálfari í Stokkhólmi, varð í 3. sæti ásamt liðsfélaga sínum, Lukas Högberg.