Björgvin Karl Guðmundsson, Lyftingafélaginu Hengli, sigraði í ólympískum lyftingum á Reykjavíkurleikunum, Reykjavik International Games, í gær.
Keppt var í svokallaðri Sinclair stigakeppni en þar reiknast saman líkamsþyngd keppenda og heildarþyngdin sem þeir lyfta í ákveðinn stigafjölda.
Björgvin Karl stóð sig frábærlega í keppninni í gær og setti fimm Íslandsmet.
Björgvin snaraði 128 kg sem er nýtt Íslandsmet og jafnhattaði 151 kg og bætti þar með eigið Íslandsmet um 1 kg. Finnskur keppinautur hans lyfti þá 153 kg þannig að Björgvin þurfti að lyfta 157 kg til að hafa betur gegn Finnanum. Það gerði Björgvin með glæsilegri lyftu og sigraði.
Björgvin Karl Guðmundsson (Lyftingafélagið Hengill)
– líkamsþyngd: 84,65 kg
Snörun: 128 kg
Jafnhending: 157 kg
– Samanlagður árangur: 285 kg
– Sinclair: 341,3 stig