Taekwondomaðurinn Björn Jóel Björgvinsson, Umf. Selfoss, vann gullverðlaun í kyorugi í -80 kg flokki fullorðinna á Reykjavíkurleikunum í gær.
Björn Jóel mætti Agli Kára Gunnarssyni, TKÓ, í fyrstu umferð og sigraði eftir hörkubardaga. Björn Jóel vann fyrstu lotuna naumlega, Egill Kári tók þá næstu en Björn Jóel mætti sterkur inn í þriðju lotuna og sigraði í henni og bardagann því 2-1.
Í seinni bardaganum mætti Björn Jóel landsliðsmanninum Wiktori Sobczynski, Aftureldingu, og vann þar öruggan 2-0 sigur og stóð því efstur og ósigraður á verðlaunapallinum í mótslok.
Björn Jóel var eini keppandi Umf. Selfoss á mótinu en þess má geta að hann er orðinn A-landsliðsmaður í landsliði TKÍ í bardaga og stefnir hann á nokkur G-class mót á næstunni á erlendri grundu, en það eru alþjóðleg stigamót.