Björn Jóel Björgvinsson, landsliðsmaður í taekwondo úr Umf. Selfoss, sýndi sína bestu frammistöðu á alþjóðlegum vettvangi á Opna spænska G-1 mótinu á Alicante í dag.
Björn Jóel, sem keppir í -80 kg flokki, mætti firnasterkum keppanda frá Brasilíu en sá er í 21. sæti á heimslistanum. Björn byrjaði bardagann mjög vel en endaði þó á að þurfa að láta í minni pokann gegn þessum sterka keppanda.
Mótið á Spáni var í beinu framhaldi af æfingabúðum sem Björn Jóel fór í ásamt fleiri íslenskum landsliðsmönnum í Noregi um páskana. Hann stefnir á fleiri keppnir erlendis á árinu og er meðal annars með heimsmeistaramótið í sigtinu, en það fer fram í Azerbaijan.