
Þriðja og síðasta bikarmót vetrarins hjá Taekwondosambandi Íslands fór fram í Vallaskóla á Selfossi um síðustu helgi. Á laugardeginum var keppt í formum og á sunnudeginum í bardaga. Selfyssingar stóðu sig vel á mótinu og rökuðu inn verðlaunum.
Þrettán keppendur frá Umf. Selfoss kepptu í formum á laugardeginum og varð Selfoss að lokum í 3. sæti í heildarstigakeppni bikarmótaraðarinnar í formum.
Úlfur Darri Sigurðsson vann gullverðlaun í junior A flokki karla en í junior A flokki kvenna tók Laufey Ragnarsdóttir gullið og Julia Wiktoria Sakowicz silfrið.
Daniel Fonseca Fortes vann silfurverðlaun í yfir 50 ára A flokki karla og Daníel Jens Pétursson fékk silfurverðlaun í undir 40 ára A flokki karla. Þá unnu Veigar Elí Ölversson og Maggie Eiden bronsverðlaun. Veigar í junior A flokki karla og Maggie í junior C flokki kvenna.
Í paraformum unnu Laufey og Úlfur Darri gullverðlaun í junior para A flokki og í hópaformum unnu Loftur, Veigar Elí og Úlfur Darri gull verðlauna í junior A flokki.



Fimm gull og hrúga af silfri
Í bardagakeppninni á sunnudeginum áttu Selfyssingar ellefu keppendur sem allir röðuðu sér á verðlaunapall og enduðu Selfyssingar í 2. sæti í heildarstigakeppni bikarmótaraðarinnar í bardaga.
Björn Jóel Björgvinsson og Dagný María Pétursdóttir sigruðu í sínum þyngdarflokkum í karla og kvennaflokki og voru þau valin bestu keppendur mótsins.
Gamla brýnið Daníel Jens gerði sér lítið fyrir og sigraði í +80 kg veteran A flokki karla, Veigar Elí sigraði í -57 kg cadet A flokki karla og Loftur Guðmundsson tók gullið í -63 kg junior A flokki karla.
Silfurverðlaunin komu svo í röðum til Selfyssinga. Katla Mist Ólafsdóttir varð í öðru sæti í +67 kg senior A flokki kvenna, Arnar Breki Jónsson varð í öðru sæti í -73 kg junior A flokki karla, Úlfur Darri varð í öðru sæti í -57 kg cadet A flokki karla, Maggie varð í öðru sæti í -63 kg junior B flokki kvenna, Snædís Freyja Stefánsdóttir varð í öðru sæti í +59 kg cadet A flokki kvenna og Tómas Birgir Frímannsson varð í öðru sæti í -41 kg cadet A flokki karla.

