Á 103. Héraðsþingi HSK í Aratungu síðastliðinn fimmtudag heiðraði Héraðssambandið Skarphéðinn tvo félagsmenn. Björn Bjarndal Jónsson, fyrrverandi formaður HSK og UMFÍ, var sæmdur gullmerki sambandsins og Guðni Sighvatsson, gjaldkeri glímuráðs HSK var sæmdur silfurmerki.
Frá því að Björn Bjarndal, frá Neðra-Dal, varð 14 ára og gekk í Umf. Biskupstungna hefur hann látið til sín taka innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Björn varð formaður Umf. Biskupstungna árið 1982 og hélt um stjórnartaumana til 1984. Hann var formaður HSK frá 1988 til 1991 og árið 1995 var hann kjörinn varaformaður UMFÍ. Hann var svo einróma kjörinn formaður UMFÍ árið 2001 og var formaður félagsins til 2007. Björn hefur fengið viðurkenningar frá heildarsamtökunum fyrir sín góðu störf en hann hefur verið sæmdur bæði gullmerki UMFÍ og ÍSÍ. Þá var hann gerður að heiðursfélaga UMFÍ árið 2011.
Guðni Sighvatsson er íþróttakennari að mennt og hefur kennt í Rangárþingi og Bláskógabyggð samhliða því að þjálfa ýmsar greinar hjá nokkrum aðildarfélögum HSK. Guðni sat í borðtennisnefnd HSK um árabil og frá árinu 2012 hefur hann verið gjaldkeri glímuráðs HSK. Guðni hefur einnig komið að æskulýðs- og íþróttamálum sem sveitarstjórnarmaður, en hann situr í sveitarstjórn Bláskógabyggðar og er formaður íþrótta- og lýðheilsunefndar sveitarfélagsins á þessu kjörtímabili.