Bláskógaskóli Laugarvatni var einn þriggja skóla sem fékk vegleg verðlaun eftir Ólympíuhlaup ÍSÍ sem fram fór í grunnskólum landsins í haust.
Í ár, eins og undanfarin ár, hafa þrír skólar sem lokið hafa hlaupinu og skilað inn upplýsingum til ÍSÍ verið dregnir út. Auk Bláskógaskóla Laugarvatni voru Vogaskóli í Reykjavík og Heiðarskóli í Reykjanesbæ dregnir út. Hver þessara þriggja skóla fær 100.000 króna inneign í Altis, en Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu.
Með hlaupinu er leitast við að hvetja nemendur í grunnskólum landsins til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Nemendur gátu valið um þrjár vegalengdir, þ.e. 2,5 km, 5 km og 10 km. Hver skóli sem tekur þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ fær viðurkenningu þar sem fram kemur hversu margir nemendur tóku þátt og heildarfjöldi kílómetra sem nemendur lögðu að baki.
Þátttakan í ár er mjög góð, en nú þegar hafa 62 skólar skilað inn niðurstöðum og hafa 14.881 nemendur hlaupið 58.333 kílómetra eða rúmlega 44 sinnum í kringum landið.
Samstarfsaðilar Ólympíuhlaups ÍSÍ eru Mjólkursamsalan sem hefur styrkt útgáfu viðurkenningarskjala frá upphafi, og Íþrótta- og heilsufræðingafélag Íslands.
Hér fyrir neðan eru myndir frá Ólympíuhlaupinu í Bláskógaskóla Laugarvatni.