Ægir vann gríðarlega mikilvægan 1-0 sigur á toppliði Berserkja þegar liðin mættust í B-riðli 3. deildar karla í Þorlákshöfn í kvöld.
Leikurinn fór fram í roki og grenjandi rigningu og Ægismenn léku gegn vindi í fyrri hálfleik. Danislav Jevtic skoraði eina mark leiksins beint úr aukaspyrnu á 40. mínútu eftir að markvörður Berserkja hafði brotið á Milan Djurovic.
Ægir byrjaði betur í seinni hálfleik, með vindinn í bakið en Berserkir áttu nokkrar hættulegar skyndisóknir. Ægismenn áttu skot í stöng og slá og bæði lið fengu dauðafæri á lokakaflanum en mörkin urðu ekki fleiri.
Ægir er nú í 2. sæti riðilsins með 17 stig en KFS hefur 16 stig og á leik til góða. KFK er skammt undan með 14 stig en Ægir heimsækir KFK í næstu umferð.