Breiðablik lagði Selfoss 1-0 í Lengjubikar karla í knattspyrnu í Kórnum í Kópavogi í kvöld. Sigurmarkið kom á 88. mínútu eftir tíðindalítinn leik.
Fátt var um opin færi í leiknum og heilt yfir voru Blikar sterkari, sérstaklega framan af leiknum. Selfyssingar voru þó mikið með boltann án þess að skapa sér teljandi færi.
Á 88. mínútu fékk varamaðurinn Viggó Kristjánsson boltann á miðjunni og skeiðaði upp að marki Selfoss, skaut hnitmiðuðu skoti rétt fyrir utan teig og boltinn söng í netinu.
Selfyssingar eru sem fyrr með 3 stig í riðlinum eftir einn sigur í þremur leikjum.