Selfoss tapaði naumlega fyrir Breiðabliki í A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust á gervigrasinu á Selfossi.
Þetta var hörkuleikur en hann var markalaus allt fram á 91. mínútu að Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði fyrir Breiðablik. Það reyndist eina mark leiksins.
Blikar eru á toppi deildarinnar með 9 stig en Selfoss hefur 3 stig í 4. sæti.
„Þetta var ágætur leikur hjá okkur og Blikar voru ekki að skapa mörg færi. Við spiluðum góða vörn en misnotuðum okkar færi, sem voru reyndar fá, en tvö mjög góð“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.