Boltinn vildi ekki inn á lokakaflanum

Hrvoje Tokic skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði 1-2 þegar liðið mætti Vestra á heimavelli í 1. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu í dag.

Sem stendur er ekki vitað hvort um uppgjör toppliðanna hafi verið að ræða, en Vestra og Selfossi er í það minnsta spáð 1. og 2. sæti í deildinni.

Fyrri hálfleikur var rólegur, Vestramenn ívið sterkari en fátt um færi.

Hlutirnir fóru hins vegar að gerast strax í upphafi seinni hálfleiks en á 48. mínútu slapp Hrvoje Tokic í gegnum vörn Vestra þar sem markvörður þeirra braut á honum. Víti dæmt og Tokic skoraði af öryggi sjálfur af punktinum.

Strax í næstu sókn fengu Vestramenn dauðafæri eftir misskilning í vörn Selfoss og mínútu síðar jöfnuðu þeir leikinn með glæsilegu skallamarki frá Isaac Da Silva eftir góða sókn og fyrirgjöf frá hægri.

Vestramenn voru sterkari í kjölfarið og á 66. mínútu endurtók Da Silva leikinn með öðrum hörkuskalla á meðan varnarmenn Selfoss horfðu á.

Síðustu tuttugu mínúturnar voru Selfyssingar atkvæðameiri og fengu nokkur ágæt færi. Hrvoje Tokic var mjög hættulegur en boltinn virðist sogast að honum í vítateignum. Hann átti meðal annars hörkuskot af stuttu færi á 72. mínútu sem Brenton Muhammad, markvörður gestanna, varði vel.

Valdimar Jóhannsson var líka ógnandi og átti ágætt langskot á 83. mínútu og fimm mínútum síðar átti Þór Llorens Þórðarson góða aukaspyrnu sem Muhammad varði út í teiginn og í kjölfarið var mikill darraðardans í teignum hjá Vestra en inn vildi boltinn ekki. Besta færið fékk Guðmundur Tyrfingsson hins vegar í uppbótartíma en hann skóflaði boltanum yfir, nánast fyrir opnu marki.

Næsti leikur Selfyssinga er á heimavelli á laugardaginn eftir viku en þá kemur Fjarðabyggð í heimsókn.

Fyrri greinMagnaðir Selfyssingar með Valsmenn upp við vegg
Næsta greinOlga kosin í stjórn ÍSÍ